Bjarni Benediktsson segist enn sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun ríkisins að grípa ekki inn í og bjarga rekstri Wow air að því er Morgunblaðið greinir frá. Segir horfa öðruvísi við ef tryggja þurfi samgöngur við landið. Sigurður Ingi samgönguráðherra sagði á sínum tíma það sama með Wow air, en sagði að Icelandair fengi sömu meðferð .

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og þriðji forystumaður ríkisstjórnarflokkanna sagði í Frjálsri verslun að björgun Wow hefði verið rædd, enda annað óábyrgt. „Við fórum yfir fordæmi frá öðrum löndum og eftir að hafa skoðað þetta í kjölinn töldum við ekki réttlætanlegt að grípa inn í. Við töldum alltof mikil áhættu fólgna í því að setja opinbert fé í svona áhættusaman rekstur,“ sagði Katrín.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa margir sagt að ríkið hefði átt að hoppa inn til að tryggja atvinnu. Nú síðast sagði Skúli Mogensen fyrrum forstjóri og stofnandi Wow air í tilefni fjáraukalaga að kostnaður ríkissjóðs af auknu atvinnuleysi staðfesti að þetta hafi verið röng ákvörðun .

„Miðað við hallann á rekstrinum á félaginu 2018 og 2019 þá hefði það verið glapræði, jafnvel þótt allt hlutaféð hefði verið afskrifað. Aðalatriðið er að ég er í grunninn þeirrar skoðunar að ef enginn einkaaðili er tilbúinn að stíga inn í fyrirtæki þar sem kröfuhafar hafa tekið á sig stórfelldar niðurfærslur, þá séu engin rök fyrir því að ríkið eigi engu að síður að gera það,“ segir Bjarni.

„Það er alltof ódýrt að koma eftir á og segja að hlutirnir hefðu bara kostað svo og svo mikið fyrir ríkissjóð að stíga inn í gegn svo og svo miklum ávinningi. Það er engin leið að leggja mat á það hvað inngrip af hálfu ríkissjóðs hefði að lokum kostað.

Ef við ætlum að treysta einkaaðilum til þess að eiga flugfélög, reka þau og keppa á frjálsum markaði, þá eiga stjórnvöld líka að halda sig í mátulegri fjarlægð, jafnvel þegar það verður umrót á markaðnum og tiltekin aðlögun að breyttum aðstæðum á sér stað.

Hér er rétt að taka fram að þessi mál geta horft öðruvísi við ef um það er að ræða að tryggja þurfi samgöngur við landið, en það átti ekki við í þessu tilviki.“