Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram áformaskjal um framlagningu lagafrumvarps á Alþingi sem heimili slit og uppgjör ÍL-sjóðs.

Áformaskjalið er lagt fram í kjölfar þess að tuttugu lífeyrissjóður lýstu því yfir í lok febrúar að þeir teldu ekki forsendur fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins að óbreyttu.

Í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér fyrir skemmstu segir að áformaskjalið gefi til kynna að þrátt fyrir áform um slit sjóðsins séu stjórnvöld enn og ávallt reiðubúin í samtal um uppgjör við eigendur skuldabréfanna, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir.

„Með samkomulagi væru heildarhagsmunir almennings í landinu best tryggðir og komist yrði hjá því að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Það sé enn talinn besti kosturinn en reynist sú leið ekki vera fær verði ekki hjá því komist að taka á málinu með öðrum úrræðum.“

Þannig hafi stjórnvöld sett fram hugmyndir um mögulegt uppgjör sem fælist í að kröfuhafar yrði boðið skipti á skuldabréfum ÍL-sjóðs og „vel dreifðu eignasafni”.

Viðræður ráðuneytisins við kröfuhafa hafa þó ekki skilað árangri og í áformaskjalinu segir að sú leið að ná samkomulagi við kröfuhafa um uppgjör virðist ekki vera fær að svo komnu máli.

„Umleitanir um að koma á samningaviðræðum hafa ekki skilað árangri til þessa. Markmiðið með áformaskjali þessu er m.a. að fá fram sjónarmið aðila og skapa viðeigandi umgjörð um lausn vandans.”

Mikilvægt að leysa úr vandanum áður en í óefni er komið

Fjármálaráðuneytið segir að áform um uppgjör sjóðsins séu í samræmi við það mat að sjóðurinn sé orðinn ógjaldfær, eins og lýst var í skýrslu um stöðu sjóðsins sem ráðherra lagði fyrir Alþingi í október síðastliðnum.

„Með þessu móti efni ríkissjóður svonefnda einfalda ábyrgð ríkisins samkvæmt skilmálum skuldabréfa útgefnum af sjóðnum. Í því felst að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á höfuðstól skulda, auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags,“ segir í tilkynningunni.

Í áformaskjalinu segir að tilgangurinn með áformaðri lagasetningu sé að fjallað verði um og tekið á fyrirliggjandi gjaldþroti ÍL-sjóðs með fyrirhyggju og aðgerðum á þann hátt að eigendur skuldabréfanna „hafi góða möguleika á að verða jafn eða betur settir miðað við að ríkissjóður efni þá einföldu ríkisábyrgð sem kveðið er á um í skilmálum skuldabréfanna.

Samhliða því verði án frekari dráttar komið í veg fyrir að vegna aðgerðaleysis stjórnvalda myndist án lagastoðar gríðarlegar viðbótarskuldbindingar sem kröfur á ríkissjóð. Þannig verði vaxandi vanda ekki velt áfram til framtíðar heldur leyst úr honum tímanlega áður en í óefni er komið. Reynslan sýnir að það er farsælasta leiðin að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála þannig að þau geti mildað ágjöf og mætt skakkaföllum sem hætt er við að samfélagið þurfi að geta staðið af sér annað slagið.“

Sérstök flýtimeðferð komi til greina

Í áformaskjalinu er minnst á sjónarmið í lögfræðiálitum og almennri umræðu um að það geti varðað við vernd eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár ef lög leiða beint eða óbeint til gjaldfellingar og uppgjörs á skuldabréfum ÍL-sjóðs.

„Ekki er gert ráð fyrir að í þeim breytingum sem yrðu á fullum efndum krafnanna fælist í raun tjón eða skerðing á eign í skilningi framangreindra stjórnarskrárákvæða. Við greiningu á því atriði þarf einnig að taka tillit til þess að fyrr eða síðar kemur að því að íslenska ríkið þarf að axla einfalda ábyrgð sína.“

Fjármálaráðuneytið útilokar þó ekki að látið verði reyna á fyrir dómstólum hvort lagasetning til að knýja fram slit ÍL-sjóðs stríði gegn ákvæðum um eignarréttarvernd. Ráðuneytið segir að löggjafanum sé heimilt að kveða á um að aðilar sem starfa á ábyrgð ríkisins verði teknir til slita- eða gjaldþrotameðferðar eins og er gert ráð fyrir í lögum um gjaldþrotaskipti.

„Til greina kemur að kveða á um sérstaka flýtimeðferð fyrir dómstólum eða úrræði til mats á meintu framtíðartjóni […] og myndi ríkissjóður þá greiða bótaskylt tjón ef sú yrði niðurstaða dómstóla.“