„Bætt staða ríkissjóðs mun skapa svigrúm fyrir áframhaldandi skattalækkanir en þær þarf að tímasetja mjög vel,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið , en fram hefur komið að afnám hafta gæti stórbætt skuldastöðu íslenska ríkisins.

Bjarni nefnir lækkun tryggingagjalds, lægri álögur á einstaklinga og afnám tolla. Hann segir að þrátt fyrir að skattar hafi verið lækkaðir umtalsvert verði lægri skattar áfram meðal forgangsmála og svigrúm verði á næstu árum til að gera enn betur.

Lögmaðurinn Lee Buchheit, sem kom að viðræðum við kröfuhafa fyrir hönd Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að afnámið hafi mikla efnahagslega þýðingu. „Íslendingar ættu að vona að höftin víki sem fyrst. Það verður enda umtalsverð lyftistöng fyrir efnahagsbatann á Íslandi. Haftaáætlunin sem var kynnt í vikunni mun aflétta höftum á skipulegan hátt og innan takmarkaðs tíma,“ segir hann.