Nokkur óvissa er uppi um framtíð stjórnarmyndunarviðræðna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Hann sagði í kjölfarið að „það kynni vel að vera,“ að hann skili stjórnarmyndunarumboði, en að næstu skref séu í höndum forseta. Þetta kom fram í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins.

Bjarni upplýsti forsetann um að slitnaði hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Bjarni sagðist jafnframt hafa átt samtöl við aðra leiðtoga flokka. En hann sagði einnig að nokkur óvissa ríkti með framhaldið, þar sem að hann væri ekki með fleiri viðmælendur til þess að mynda meirihlutastjórn að svo stöddu.

Bjarni er formlega með umboðið þangað til að forseti Íslands tekur aðra ákvörðun. Bjarni sagðist meðal annars hafa rætt stuttlega við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna og Sigurð Inga Jóhannesson, formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra.