Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vildi ekki tjá sig um pistli blaðamannsins Cyrus Sanati á viðskiptavef bandarísku fréttastofunnar CNN þess efnis að annað efnahagshrun geti verið í sjónmáli hér á landi. Bjarni hafði ekki lesið pistilinn þegar VB.is leitaði viðbragða í dag.

Í pistlinum segir að Ísland sé tifandi tímasprengja. Rifjað er upp að gjaldeyrishöft séu enn við lýði og þurfi bæði landsmenn og lífeyrissjóðir að einskorða fjárfestingar sínar við Ísland og kaupa innlenda framleiðslu. Þessu til viðbótar er bent á að skuldir séu miklar, skuldir heimila nemi 109% af landsframleiðslu og fyrirtækja 170% af landsframleiðslu.