Bjarni Brynjólfsson hefur verið ráðinn upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Bjarni er 47 ára gamall fjölmiðlafræðingur frá Polytechnic of Central London (nú University of Westminster). Hann á að baki langan feril á sviði fjölmiðla og almannatengsla auk ýmissa tengdra sviða. Hann hefur verið ritstjóri tímaritanna Iceland Review og Atlantica frá árinu 2007,“ segir í tilkynningunni. Bjarni var ennfremur ritstjóri Séð & heyrt á tímabili.

„Bjarni hefur störf hjá Reykjavíkurborg í byrjun apríl. Hann mun leiða upplýsinga- og vefteymi borgarinnar í upplýsingagjöf til starfsmanna og íbúa í borginni.

Bjarni er kvæntur Ingibjörgu Önnu Arnarsdóttur, deildarstjóra í Garðaskóla, og eiga þau tvö börn.“