Viðskiptablaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Bjarna Ármannssyni, en þar segir hann að mistök hafi verið gert í skattframtalsgerð en að hann hafi þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi. Það hafi komið honum á óvart að málið færi í ákærumeðferð.

Yfirlýsingin í heild sinni er svohljóðandi:

„Mér hefur borist ákæra um að hafa staðið skil á röngum skattframtölum. Um er að ræða vanframtaldar fjármagnstekjur. Nánar tiltekið vanframtalinn söluhagnað, vaxtatekjur og arðstekjur. Einnig er um að ræða offramtalin söluhagnað. Leiðir þetta til vanframtalins fjármagnstekjuskattsstofns sem mér ber að greiða skatt af, eða skatt að fjárhæð kr. 20.487.295,-

Meira en 90% af þeim skattstofni sem var vanframtalinn tengist viðskiptum milli félaga í minni eigu sem síðar voru sameinuð í eitt félag. Enginn ágreiningur er um að gerð voru mistök í skattframtalsgerðinni og hef ég þegar greitt það sem var vanframtalið með tilheyrandi álagi skattyfirvalda. Það kom mér verulega á óvart að málið færi í ákærumeðferð hjá sérstökum saksóknara, bæði vegna þess að ég leiðrétti mistökin sem voru gerð og gerði upp skattskuldina með viðeigandi álagi.

Virðingarfyllst,

Bjarni Ármannsson.“