*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 8. desember 2017 10:29

Bjarni efast um útreikninga SA

Fjármálaráðherra efast um útreikninga SA á 42 milljarða útgjöldum í stjórnarsáttmála til samgangna, fjarskipta og byggðamála.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist í samtali við Morgunblaðið ekki átta sig á útreikningum Samtaka atvinnulífsins á árlegri útgjaldaaukningu ríkissjóðs miðað við stjórnarsáttmálann.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áætla samtökin að þegar allar boðaðar aðgerðir í stjórnarsáttmálanum eru komnar til aðgerða bætist 90 milljarðar við árlegan kostnað ríkisins. Auk þess segja samtökin að þau sakni þess að ekki sé talað um aðhald og niðurgreiðslu skulda eins og þyrfti á toppi hagsveiflunnar.

Í útreikningum SA er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist saman um 15 milljarða króna vegna skattalækkana, sem samtökin segja kærkomnar því nánast hvergi meðal þróaðra ríkja séu skatttekjur hins opinbera hærri en á Íslandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

„[S]vo framarlega sem stjórnvöld skapi rými til þeirra á útgjaldahliðinni,“ segir í greiningunni en samtökin benda á að lífsbjörg Íslendinga eftir niðursveifluna árið 2008 hafi verið hve lítið skuldsettur ríkissjóður var.

„Það er áhyggjuefni að ekki hafi verið dreginn meiri lærdómur af sögunni við gerð þessa sáttamála. Í ríkisfjármálum höfum við reglulega farið fram úr okkur í uppsveiflu og tekið það út með meiri samdrætti en annars þegar slaki myndast í hagkerfinu.“

Á útgjaldahliðinni sést að stærstu kostnaðarliðirnir eru taldir verða:

  • Samgöngur, fjarskipti og byggðamál sem kosti rúma 42 milljarða
  • Heilbrigðismál sem kosta 15 milljarða
  • Velferðarmál sem bæti 9.600 milljónum við
  • Mennta- og menningarmál sem bæti 9.310 milljónum við
  • Húsnæðismál sem kosti 8.500 milljónir

Fjármálaráðherra segist sem minnst vilja segja um útreikninga SA að svo stöddu.

„Þó verð ég að segja að ég átta mig alls ekki á hvernig SA kemst að þeirri niðurstöðu að við verðum með varanlega útgjaldaaukningu í samgöngum, fjarskiptum og byggðamálum, upp á 42,2 milljarða króna á ári,“ segir Bjarni. „Mér finnst þetta vera stærsta spurningin, sem Samtök atvinnulífsins þurfa að svara.“