Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vera að íhuga stöðu sína og stöðu flokksins miðað við það fylgi sem flokkurinn er að mælast með þessa dagana.

Þetta sagði Bjarni í viðtali í þættinum Forsætið í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Þar segir Bjarni að hann hefði ekki fyrr en í dag íhugað það segja af sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni var í þættinum spurður um stöðu sína og flokksins í ljósi þeirra kannana sem hafa verið að birtast síðustu daga og vikur. Miðað við þær er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast með 19-23% fylgi og hefur verið á hraðri niðurleið síðustu vikur og mánuði, eða allt frá áramótum.

Ómannlegt að horfast ekki í augu við stöðuna

„Ég er bara mjög einlægur með það að nú er ég mjög alvarlega að fara yfir stöðuna fyrir flokkinn minn, fyrir sjálfan mig,“ sagði Bjarni. „Ég segi það alveg eins og er: Það hefur ekki hvarflað að mér að stíga til hliðar fyrr en núna, síðast í dag í raun og veru að ég velti því fyrir mér hvort það geti orðið til gagns fyrir flokkinn.“

Annar þáttastjórnenda spurði Bjarna hvort hann væri í raun og veru ekki búinn að vera ef hann segist vera að íhuga að segja af sér. Bjarni svaraði:

„Menn verða að vera tilbúnir til að tala um hlutina beint út. Það skiptir máli fyrir mitt fólk í mínum flokki að vita nákvæmlega hvar ég stend. Það væri næstum því ómannlegt að horfast ekki í augu við þá stöðu sem er uppi núna og taka sér að minnsta kosti dag, tvo, þrjá daga.“

Hanna Birna með mesta fylgið

Viðskiptablaðið birti sem kunnugt er könnun í morgun þar sem spurt var um fylgi almennings til einstakra stjórnmálamanna og það hvort að viðkomandi myndi frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins. Þar kemur fram að nær helmingur þeirra sem ætla sér að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins og leiddi hann í gegnum Alþingiskosningar.

Þá mældist Hanna Birna jafnframt með mest fylgi þeirra stjórnmálamanna sem spurt var um.