Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við RÚV að mikil gjá sé á milli þeirra sem vilji hækka laun um 50 til 100% og þess svigrúms sem sé til staðar í hagkerfinu. Hann hefur hins vegar trú á að hægt sé að finna lausnir í yfirstandandi kjaradeilum.

„[É]g segi það bara fyrir þá sem voru ekki búnir að átta sig á því að það er ekki hægt að hækka laun um hundrað prósent,“ segir Bjarni í samtali við RÚV.

Bjarni kveðst vilja ná niður vöxtum og fá alvöru grunn undir kjarabætur. Þá vilji hann gera betur við þá sem ekki hafi nóg milli handanna og sjá fólk vaxa í starfi.

Aðspurður hvað stjórnvöld geti gert í málinu segir Bjarni að þau þurfi að halda áfram að ræða saman. Samninganefndir séu að störfum og fólk verði að trúa því að hægt sé að finna lausnir.