„Það hefur ekkert aðildarríki fengið undanþágu frá landbúnaðar- eða sjávarútvegsstefnunni,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi flokksins um Evrópusambandsmál í Valhöll í dag. Hann sagði að sambandið legði áherslu á það að leikreglur væru þær sömu fyrir öll aðildarríkin.

„Ég og við sjálfstæðismenn á Alþingi byggjum afstöðu okkar á að það sé ekki heiðarlegt að standa í einhverju leikriti gagnvart þjóðinni eða erlendum þjóðum. Menn verða að fara í leiðangur eins og þennan vissir um vistir og hvar maður ætlar að lenda,“ sagði Bjarni.

Hann minnti á að hann væri í ríkisstjórn þar sem enginn ráðherra styður aðild. Sú ríkisstjórn væri studd þingflokkum sem er á móti aðild. „Ég er formaður flokks sem er á móti inngöngu í Evrópusambandið,“ sagði Bjarni.  Bjarni sagði að viðræður um aðild að Evrópusambandinu, þar sem hugur fylgdi ekki máli, væri óraunhæfur möguleiki.

Hann rifjaði upp að Össur Skarphéðinsson hefði í gær sakað sig um svik. „Ég veit ekki hvaða skuldbindingar ég hef gagnvart honum eða þeim sem hafa lýst því yfir á undanförnum árum að þeir hafi ekki kosið sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að Samfylkingin, eini flokkurinn sem væri fylgjandi aðild, hefði fengið tæp þrettán prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum.