Landsréttur sneri á þriðjudag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sjávarsýnar ehf., félagi Bjarna Ármannssonar, gegn íslenska ríkinu. Með héraðsdómi hafði úrskurður yfirskattanefndar í máli félagsins verið felldur úr gildi og ríkið dæmt til að greiða því tæpar 103 milljónir króna auk vaxta frá mars 2016 og dráttarvaxta frá byrjun árs 2017.

Málið laut að sameiningu Sjávarsýnar og dótturfélags þess, Imagine Investment ehf. (II), fyrir um áratug en eftir samrunann færði yfirtökufélagið ónotað rekstrartap til frádráttar í skattskilum sínum. Í dómi Landsréttar kom fram að til að slíkt væri unnt þyrftu bæði félögin að vera með skyldan rekstur eða starfsemi, þar sem tapið þarf að hafa orðið til, og að sameiningin væri gerð í eðlilegum rekstrartilgangi.

Að mati Landsréttar voru skýringar sem gefnar voru á samrunanum, þess efnis að hagræðingarsjónarmið innan félagasamstæðu hefðu búið að baki honum, ekki þess eðlis að það styddi að eðlilegur rekstrartilgangur hefði búið þar að baki. Þvert á móti væri „nærtækast að líta svo á“ að ástæða sameiningarinnar hafi verið sú að nýta ætti uppsafnað rekstrartap Imagine Investment til lækkunar á skattskyldum Sjávarsýnar. Íslenska ríkið var því sýknað.