„Við erum komnir þónokkuð langt“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varðandi stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Hann hlaut stjórnarmyndunarumboð frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, rétt í þessu. Hann segist bjartsýnn og að helstu mál séu komin lengra en þau voru í fyrri viðræðum.

Bjarni segist meðvitaður um að þetta sé naumur meirihluti og því leggur hann áherslu á að taka meiri tíma til að ræða saman. Hann segir jafnframt að stjórnarmyndunarviðræðurnar séu á milli þessara þriggja flokka, en ekki annarra. Bjarni segist nokkuð bjartsýnn um að flokkarnir þrír nái í land - en hann vildi þó halda aftur að sér með yfirlýsingar.

Gengið er út frá því að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra í stjórninni ef að viðræður takast.

Hér má sjá yfirlýsingu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, vegna málsins:

Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, skilaði fyrir hönd þess flokks umboði forseta til stjórnarmyndunar. Þingstörf tóku þá við og hlé var gert á formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem nyti meirihlutastuðnings á Alþingi. Frá því að þingi var frestað hafa átt sér stað óformlegar viðræður fulltrúa Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks um möguleika á stjórnarsamstarfi þessara flokka. Fyrr í dag gengu Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á fund minn og lýstu vilja til að ganga til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar þessara flokka, undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar þessa fundar, og í ljósi undangenginna viðræðna, boðaði ég Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fund minn. Að loknum samræðum okkar um stöðu mála fól ég honum umboð til stjórnarmyndunar.