Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vinna að skatta- og skuldalækkunum komist hann í stjórn, að því er kom fram í setningarræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins rétt í þessu.

Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn vildi lækka tekjuskatt á einstaklinga að nýju og afnema þrepaskipt skattkerfi. Þá yrði settur á sérstakur skattaafsláttur vegna afborgana lánum á eigin húsnæði og þegar slík lán eru greidd hraðar upp. Sagði hann að nú þegar væri veittur skattafsláttur vegna séreignarsparnaðar í lífeyriskerfinu. Sami afsláttur ætti rétt á sér ef fólk vildi frekar lækka húsnæðisskuldir sínar.

Þá sagði hann að breyta ætti lögum um gjaldþrotaskipti með þeim hætti að ekki væri hægt að gera fólk upp vegna húsnæðisskulda. Fólki, sem ekki geti lengur staðið í skilum á íbúðalánum sínum, verði heimilt að skila lyklunum án þess að það leiði til gjaldþrots.

Hvað varðar lánamarkaðinn sjálfan sagði hann mikilvægt að fólk hefði raunverulegt val um það hvernig lán það vildi taka. Tryggja þyrfti framboð á óverðtryggðum lánum með föstum vöxtum til langs tíma. Hins vegar mætti ekki afnema verðbólguna, því það myndi setja sparnað fólks í hættu. Mestu máli skipti að halda verðbólgunni í skefjum, því með þeim hætti væri vöxtum haldið lágum.