Fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi tóku þátt í umræðum um vinnumarkaðinn og skatta á fyrirtæki á fundi Samtaka atvinnulífsins, Hvert fara peningarnir þínir?, sem haldinn var á miðvikudaginn. Allir voru sammála um að vert væri að ráðast í lækkun tryggingagjalds.

Þegar allir höfðu talað stuttlega um tryggingagjaldið bað Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um orðið. Hann sagði óskir atvinnulífsins um lækkun tryggingagjalds á sama tíma og laun eru hækkuð stórlega vera ótrúverðugar.

„Þetta er bara rökleysa“

„Hversu íþyngjandi er tryggingagjaldið fyrir þá atvinnurekendur sem hækka laun um sex, sjö, átta, níu prósent á hverju einasta ári,“ spurði hann. „Ef menn hækka laun um sex, sjö prósent á hverju einasta ári eru menn ótrúverðugir þegar menn koma og segja: það verður að lækka tryggingagjaldið um eitt, tvö prósent, annars er bara allt búið.“

Brynhildur S. Björnsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna hvort launahækkanir væru ekki vegna kröfu í samfélaginu sem atvinnurekendur þyrftu að bregðast við. Bjarni spurði þá Brynhildi hvers vegna laun væru þá ekki hækkuð um 50 prósent.

„Samkvæmt þessari kenningu eigum við bara að hækka launin eins lengi og fólk er ánægt með þær hækkanir sem um er að ræða. Þetta er bara rökleysa,“ sagði hann.

Endum aftur og aftur úti í skurði

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, sagði samtökin hafa gagnrýnt hið opinbera fyrir að vera leiðandi í launahækknum. Bjarni sagði kjarasamningalotuna hafa þróast þannig að það hefði verið nauðsynlegt að lækka tekjuskatt á millitekjuhópa.

„Þegar það var orðið niðurstaðan gátum við ekki jafnframt lækkað tryggingagjaldið. Þess vegna drógum við úr áformum okkar um að lækka tryggingagjaldið,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði umræðuna um það hver ber ábyrgð á launaskriði vera samtal þar sem enginn getur orðið sigurvegari. „Það er bara saga íslenska vinnumarkaðarins. Það er alltaf leitin að þeim sem ber ábyrgð á helvítis vitleysunni. En við endum bara úti í skurði aftur og aftur með háa verðbólgu.“

Upptaka af fundinum er í spilaranum hér að ofan.