„Ég hafði bara augu á fjárfestingunni, en ekki fyrirkomulaginu í kringum hana,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um það hvernig standi á því að hann hafi ekki vitað að hann ætti hlut í félagi sem staðsett var á Seychelles-eyjum. Hann ræddi við Viðskiptablaðið um málefni félagsins, en í gær greindi hann frá því að hann hefði átt þriðjungshlut í félaginu.

„Ég var ekki að velta því fyrir mér hvernig þetta var sett upp og treysti mínum viðskiptafélögum fullkomlega til að gæta minna hagsmuna. Fyrirkomulagið var, að því er ég held, eins og það var samkvæmt ráðgjöf frá Landsbankanum í Lúxemborg.“ Hann segir að eini tilgangur félagsins, sem hét Falson & Co, hafi verið að halda utan um íbúðareign í Dubai en svo fór að aldrei var tekið við íbúðinni. Ákveðið hafi verið að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 hafi málið verið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli.

Verst að hafa ekki greint rétt frá

„Félagið hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi,“ segir Bjarni og segir að aðrir hafi verið í forsvari fyrir fyrirtækið og hafi haft frumkvæði að fjárfestingunni. Hann hafi aldrei fengið uppgjör eða aðrar upplýsingar sem hafi gefið til kynna að félagið væri staðsett annars staðar en í Lúxemborg, þar sem hann taldi það hafa verið. Hann hafi greint frá eignarhlutnum á skattskýrslu sinni.

„Það sem mér þykir verst er að ég hafi ekki greint rétt frá í fyrra þegar ég var spurður að því hvort ég hefði átt aflandsfélög, en þau svör gaf ég eftir bestu vitund. Þá hefur komið fram að ég átti eitt sinn bankareikning í Sviss, en það skýrist af því að bankamaður sem ég hafði átt í viðskiptum við skipti um starf og flutti þangað. Ég vildi halda áfram í viðskiptum við hann, en þessi reikningur er ekki til lengur. Ég hef flutt allt mitt fjármagn heim til Íslands og hef ekki nýtt neinar afsláttarleiðir til þess.“ Í yfirlýsingu sinni í gær sagði Bjarni að hann hefði ákveðið, þegar hann bauð sig fram til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins, að stunda ekki viðskipti samhliða starfi sínu og hafi frá árinu 2009 ekki átt hlutabréf.

„Mestu máli skiptir að hafa hendur í hári þeirra sem vilja skjóta sér undan skyldum sínum gagnvart samfélaginu,“ segir Bjarni.

Málið til trafala

Spurður að því hvaða áhrif mál hans og samráðherra hans, Ólafar Nordal og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, muni hafa á störf ríkisstjórnarinnar segir Bjarni að ríkisstjórnin óski þess eins að sinna þeim verkefnum sem hún hafi sett á dagskrá. „Við höfum áorkað miklu og það er farið að skila sér til almennings og fyrirtækja. Allt sem dregur athygli frá þessum staðreyndum er vissulega til trafala.“