Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hann hafi verið hugsi yfir því hvort rétt væri af hálfu Íslendinga að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og vesturvelda gagnvart Rússlandi. Greint er frá þessu á mbl.is .

Bjarni segir í samtali við mbl.is að hann hafi gert grein fyrir efasemdum sínum um málið á ríkisstjórnarfundum þegar það var rætt og segir hann þvinganirnar hafa breyst mikið frá því að þær voru fyrst samþykktar. Þá hafi aðeins verið um að ræða frystingu á eignum nokkurra rússneskra ráðamanna, en í dag séu þær mun víðtækari.

Þá telur hann að endurskoða hefði átt málið eftir því sem á leið, sérstaklega eftir að Rússar ákváðu að fara í gagnaðgerðir. Segist hann telja að Íslendingar þurfi að gefa að því betri gaum hvað að sé nákvæmlega sem þeir séu að styðja í þvingununum.