„Ég hef tekið þá ákvörðun að finna pólitískum kröftum mínum annan farveg," segir Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sem hefur sagt sig úr flokknum.

Hann tekur þó fram að hann sé ekki hættur í stjórnmálum.

„Ég tók þessa ákvörðun fyrir nokkru síðan og hún tengist á engan hátt atburðum síðustu daga." Ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar afsagnar Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins.

„Ég tel að þær skoðanir sem ég hef staðið fyrir og hef talið vera framsóknarstefna eigi sér ekki lengur rými innan þess flokks sem ég sat á Alþingi fyrir."

Gengur til liðs við grasrótarhóp gegn ESB

Hann segir að flokkurinn hafi fjarlægst þau gildi sem hann stóð fyrir og vísar þar meðal annars til áherslna til aðildar að Evrópusambandinu. „Ég er að tala um gildi þjóðrækni, ég er að tala um byggðastefnu og ég er að tala um samstöðu með útgerð og bændum," segir hann enn fremur til útskýringar.

Þá sé hann að tala um virðingu fyrir opnu og lýðræðislegu uppgjöri við þær hremmingar sem þjóðin gangi í gegnum. Framsóknarflokkurinn, segir hann, geti ekki frýjað sig ábyrgð af því.

Hann segir ekki mikla líkur á því að breytingar verði til batnaðar í flokknum.

Hann segist vera að ganga til liðs við grasrótarhóp sem eigi það sameiginlegt að hafa efasemdir um inngöngu Íslands í ESB. Í hópnum sé sömuleiðis ákveðin hófsöm áhersla á þjóðleg gildi.

Aðspurður segir hann að Guðni Ágústsson sé ekki í þeim hópi.