*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 17. janúar 2009 12:38

Bjarni Harðarson: Feginn að vera ekki í Framsókn

Ritstjórn

Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segist aldrei hafa fundið eins sterkt til feginleika yfir því að vera ekki í Framsóknarflokknum - eins og nú.

Vísar hann þar til samþykktar flokksþings framsóknarmanna um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Bjarni segir á bloggi sínu að Framsóknarflokkurinn geti allt eins sameinast Samfylkingunni. Sjálfur hefur Bjarni upplýst að hann sé hvergi nærri hættur í stjórnmálum heldur sé að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Í þeim flokki verði einstaklingar sem séu andsnúnir ESB.

Framsóknarmenn samþykktu með þorra atkvæða á flokksþingi sínu í gær ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Óvissa um formannskjörið

Þing framsóknarmanna stendur nú yfir í Valsheimilinu við Hlíðarenda og verður kosið um nýja forystu á morgun, sunnudag. Formannsefnin takast á í kappræðum í dag og svara fyrirspurnum.

Fimm hafa boðið sig fram til formennsku í flokknum. Í samtölum Viðskiptablaðsins við flokksþingsfulltrúa kemur fram að stór hópur framsóknarmanna hafi ekki gert upp hug sinn gagnvar formannsefnunum. Því ríki mikil óvissa um niðurstöðuna.

Blogg Bjarna má finna hér.