Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að hafa fyrir mistök í gærkvöldi sent fjölmiðlum bréf sem átti að fara á aðstoðarmann hans.

Bréfið, sem skrifað var af tveimur framsóknarmönnum úr NV kjördæmi, innihélt árásir á Valgerði Sverrisdóttur, varaformann Framsóknarflokksins vegna afstöðu hennar til Evrópusambandsins.

Bjarni hafði beðið aðstoðarmann sinn um að búa til „anymous netfang" og senda bréfið síðan á fjölmiðla. Svo illa vildi til, fyrir Bjarna, að hann sendi bréfið sjálfur á fjölmiðla landsins.

Í tilkynningu sem Bjarni sendi úr fyrir stundu kemur fram að í gærkvöldi hafi honum orðið á alvarleg mistök.

„Vitaskuld hljóp hér pólitískur hiti með mig í gönur,“ segir Bjarni í tilkynningunni.

„Ég hef af þeirri ástæðu ákveðið að segja af mér þingmennsku enda hefur það ævinlega verið bjargföst sannfæring mín að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum. Um leið og ég kveð stuttan og viðburðaríkan þingferil óska ég samstarfsfólki mínu á þingi og í Framsóknarflokki allra heilla.“

Þá kemur fram að Bjarni hafi tilkynnti ákvörðun sína formanni Framsóknarflokksins og skrifstofustjóra Alþingis.