Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa fengið sterk og jákvæð viðbrögð við þeim ummælum hans að hann væri að væri að íhuga það hvort rétt væri að segja af sér sem formaður flokksins. Í viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær sagðist hann ætla að taka sér tvo til þrjá daga til að taka ákvörðun um framhaldið. Í fréttum Bylgjunnar sagði Bjarni að viðbrögðin hefðu verið sterk og að hann hafi fengið mikla hvatningu um að halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í sjónvarpinu í gær sagði Bjarni að það hafi ekki verið fyrr en í gær að hann hefði íhugað það að segja af sér. „Ég er bara mjög einlægur með það að nú er ég mjög alvarlega að fara yfir stöðuna fyrir flokkinn minn, fyrir sjálfan mig,“ sagði Bjarni. „Ég segi það alveg eins og er: Það hefur ekki hvarflað að mér að stíga til hliðar fyrr en núna, síðast í dag í raun og veru að ég velti því fyrir mér hvort það geti orðið til gagns fyrir flokkinn.“

Á fimmtudag birti Viðskiptablaðið könnun í morgun þar sem spurt var um fylgi almennings til einstakra stjórnmálamanna og það hvort að viðkomandi myndi frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins. Þar kemur fram að nær helmingur þeirra sem ætla sér að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi örugglega eða líklega kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins og leiddi hann í gegnum Alþingiskosningar.