Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins leggur til að 5% hlutur í bönkum, sem ríkið eignast að öllu leyti  eða að stórum hluta, verði dreift til landsmanna, verði bankinn eign ríkissjóðs. Hann segir að eignarhald bankanna verði ekki mikið dreifðara hér á landi en ef 300 þúsund hluthafar eigi í bankanum.

Bjarni lét þessi orð falla á landsfundi Sjálfstæðisflokksins , sem stendur nú yfir. Hann útilokaði ekki tímabundnar kvaðir á sölu á þeim hlutabréfum sem ríkið myndi afhenda með þessum hætti.

Á meðal annars sem kom fram í ræðu Bjarna var að starf og stefna ríkisstjórnarinnar hafi leitt til aukinnar tiltrúar á atvinnulífið. Hann ræddi um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og sagði Sjálfstæðisflokkinn leggja áherslu á jöfn tækifæri. „Við ömumst ekki við því að sumum gangi betur á lífsleiðinni, það er gangur lífsins,“ sagði Bjarni í ræðunni.

Þá lagði hann áherslu á að gera þyrfti ungu fólki auðveldara að eignast sína fyrstu íbúð, meðal annars með því að festa séreignasparnaðarleiðina í sessi.

Á meðan vaxtabætur væru við lýði væri hins vegar góð hugmynd að þær gengju beint í að greiða upp lánið.