Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fagnar því á facebook síðu sinni að seðlabankinn hafi, líkt og Viðskiptablaðið hefur ítarlega greint frá í morgun, lækkað stýrivexti sína. Honum þykir þó athyglivert að bankinn segist ekki telja ástæðu til að gera ráð fyrir róttækum breytingum á ríkisfjármálastefnunni á næstunni.

„Gott ef rétt reynist. Þá geta vextir áfram lækkað og verðbólga haldist í skefjum. Hún er nú 1,4%,“ segir Bjarni. „Í dag mælist VG hins vegar stærsti flokkurinn og að óbreyttu verður mynduð vinstri stjórn innan fárra vikna undir forystu VG með Samfylkingunni og Pírötum.“

Ríkisstjórn Bjarna samþykkti í upphafi kjörtímabilsins ríkisfjármálastefnu til næstu fimm ára sem átti að vera leiðarvísir fyrir fjárlagagerð ríkisins. „Formaður VG hefur ítrekað kallað ríkisfjármálastefnuna sem fylgt hefur verið undanfarið sveltistefnu. Það eru stór orð,“ segir Bjarni.

„Í samræmi við það hefur flokkurinn boðað mörg hundruð milljarða ný útgjöld næstu árin sem sækja á í vasa skattgreiðenda. Samfylkingin hefur talað á svipuðum nótum.“ Bjarni segir að þvert á það sem Seðlabankinn segir sé í kortunum róttæk breyting.

„Hún er vinstri róttæk,“ segir Bjarni og vill frekar að haldið sé áfram á réttri braut, en bendir jafnframt á að framhaldið sé í höndum kjósenda. „Hún fjallar um stóraukin ríkisútgjöld og aukna skattheimtu, verðbólgu og hærri vexti.“