Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir sameiginlegt fjármálaeftirlit á EES-svæðinu krefjast stórkostlegs valdaframsals af hálfu Íslendinga verði kerfið innleitt í EESsamninginn. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.

Evrópusambandið hefur samþykkt nýjar reglur um eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum innan allra aðildarríkja sambandsins. Nýju reglurnar falla undir EES-samninginn og eiga því við á Íslandi einnig. Nú er unnið að því að innleiða reglurnar í samninginn.

Umræða hefur skapast um hvort nýjar reglur standist stjórnarskrá lýðveldisins. „Ég tel fráleitt að við mundum hrökkva til og breyta stjórnarskránni út af þessari gerð ESB, það finnst mér alls ekki koma til greina.“ Bjarni bendir á að Íslendingar verði að lúta boðum frá Brussel í efnahagsmálum. „Ef þessar gerðir sem ESB er að fara fram á að verði innleiddar í EES-samninginn hefðu verið í gildi þegar bankakrísan skall á 2008, þá hefðum við að mestu tekið við fyrirskipunum frá Brussel.“