„Það byrjar nú á því að það er engin ríkisábyrgð á bönkum þannig að það er ekki hægt að taka gjald vegna ríkisábyrgðar á fjármálafyrirtæki,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við fréttastofu RÚV .

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, lagði til á þinginu í síðustu viku að bankarnir borguðu allt að 20 milljarða króna í ríkisábyrgðargjald á ári hverju. Slíkt gjald gerði ríkissjóð betur í stakk búinn til þess að takast á við annað bankahrun.

Aðspurður hvort ríkið myndi ekki alltaf hlaupa undir bagga með bönkunum ef í harðbakkan slæi segir Bjarni að gerðar hafi verið breytingar á löggjöf, til dæmis með því að veita innstæðum forgang að eignum banka.

„Það eitt og sér er risastór ráðstöfun til þess að koma innstæðum í skjól ef í harðbakkann slær eins og þú segir. En í þeim tilvikum sem við þurftum við að glíma hérna á árunum 2008 og 2009 tókum við ekki á ríkissjóð þær skuldir sem bankarnir höfðu tekið á sig.“

Hann segir hins vegar skilja hugmyndina ágætlega. „Hún er sem sagt sú að vera með eins konar gjald fyrir það að bankarnir séu óbeint í skjóli ríkisins vegna þess að ríkið muni hvort eð er alltaf grípa inn í. En á meðan það er engin ríkisábyrgð, þá tekurðu ekki ríkisábyrgðargjald.“