*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 13. mars 2020 11:37

Bjarni kaupir fyrir 100 milljónir í VÍS

Forstjóri ISI á nú um 5,2% í Vátryggingafélaginu. Afkomuspá félagsins felld úr gildi og útgreiðsla 2 milljarða hagnaðar frestað.

Ritstjórn
Bjarni Ármannsson er forstjóri Iceland Seafood International, en hann kaupir nú í VÍS.
Eggert Jóhannesson

Bjarni Ármannsson forstjóri Icelanda Seafood International hefur keypt 12 milljón hluti í VÍS og þar með á hann 5,17% í félaginu í gegnum félag sitt Sjávarsýn ehf.

Ef miðað er við gengi VÍS nú, sem komið er í 8,18 krónur, fengust nýju hlutirnir á 98,2 milljónir króna, en miðað við sama verð er heildarverðmæti hluta hans í félaginu 826,2 milljónir króna.

Gengi bréfa VÍS hefur lækkað um 2,68% það sem af er morgni í 531 milljóna króna viðskiptum, en miklar sveiflur hafa verið á hlutabréfamörkuðum síðustu daga vegna áhrifa útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 á markaðsaðstæður.

Þar með talið tilkynnti VÍS um það í morgun að afkomuspá þess fyrir árið hefði verið felld úr gildi, vegna óvissunnar sem veiran veldur. Auk þess hefur ákvörðun um útgreiðslu hagnaðar, sem átti að nema ríflega 2 milljörðum króna, verið frestað til framhaldsaðalfundar sem haldinn yrði innan tveggja mánaða frá aðalfundi félagsins 19. mars næstkomandi.