Bjarni Ármannsson forstjóri Iceland Seafood International keypti í dag í gegnum félag sitt Sjávarsýn ríflega 6,9 milljón hluti í félaginu á genginu 8,40, eða fyrir tæplega 58,3 milljónir króna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá hækkaði virði bréfa ISI mest í viðskiptum dagsins í kauphöllinni, eða um 2,88% og enduðu bréfin í 8,57 krónu. Þar með var lokaverðmæti bréfanna sem Sjávarsýn keypti 59,4 milljónir króna, og heildarverðmæti allra 290 milljón hlutanna sem félagið á nemur því rétt tæplega 2,5 milljörðum króna.

Þorgerður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ISI í Þýskalandi keypti tæplega 443 þúsund hluti í félaginu í dag. Nýtti hún til þess kauprétt svo fékk hlutina á verðinu 5,4 krónur, svo heildarkaupverðið nam 2,4 milljónum, en verðmæti þeirra nú er 3,8 milljónir króna. Í heildina á hún nú 1.250.000 hluti sem eru þá að verðmæti 10,7 milljóna króna miðað við lokagengi viðskipta dagsins.

Fjármálastjóri félagsins, Reynir Jónsson keypti einnig bréf í félaginu í dag, 240 þúsund talsins, á sama gengi og félag Bjarna, eða á 8,4 krónur hvert eða fyrir rétt rúmlega 2 milljónir króna. Til viðbótar á hann kauprétt á tæplega 6,8 milljón hlutum í félaginu.