Bjarni Benediktsson hefur verið kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með 78,9% atkvæða. Greidd atkvæði voru 1229, þar af 39 auð og ógild og hlaut Bjarni samtals 939 atkvæði.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem ekki gaf kost á sér til embættisins, hlaut 224 atkvæði eða 18,8% greiddra atkvæða. Mótframbjóðandi Bjarna, séra Halldór Gunnarsson, hlaut 1,6% atkvæða.

Landsfundargestir risu úr sætum með lófataki þegar greint var frá kjöri Bjarna Benediktssonar til formennsku í Sjálfstæðisflokkinum. „Fyrir þetta traust er ég gífurlega þakklátur,“ sagði Bjarni þegar hann steig í pontu að úrslitum ljósum. „Ég hlakka til að vinna með ykkur, hverju einu, í kosningum í þágu heimilanna. Þakka ykkur fyrir,“ sagði Bjarni í lok ræðu sinnar.