Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood og fjárfestir er orðinn einn stærsti eigandi VÍS samkvæmt frétt Markaðarins . Fjárfestingarfélag Bjarna, Sjávarsýn, keypti í síðustu viku 2,56% hlut í tryggingarfélaginu og nam kaupverðið um 550 milljónum króna.

Í frétt Markaðarins er haft eftir Bjarna að kaupin séu einungis fjárfesting og að hann hafi ekki í hyggju að sækjast eftir því að bjóða sig fram í stjórn félagsins.

Auk þess að vera einnig orðið einn stærsti eigandi VÍS á Sjávarsýn einnig um 11% hlut í Iceland Seafood en um ár er síðan að Bjarni tók við sem forstjóri félagsins. Þá á Sjávarsýn Gasfélagið og Ísmar að fullu auk þess að eiga 80% hlut í hreinlætisvörufyrirtækinu Tandur.