Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvetur kröfuhafa Íbúðalánasjóðs til þess að vera „sveigjanlegir“ í samningum verði óskað eftir breytingum á skilmálum útistandandi skuldabréfa sjóðsins. Hann segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna halla sjóðsins alvarlegt mál þar sem ríkið ábyrgist skuldir hans og telur að leysa þurfi vanda sjóðsins á þessu ári. Ekki kemur þó til greina að afnema ríkisábyrgðina, að mati Bjarna.

Í umfjöllun Bloomberg er tæpt á stöðu Íbúðalánasjóðs og rifjað upp að matsfyrirtækið Moody's hafi lækkað lánshæfismat hans úr Baaa3 með neikvæðar horfur í Ba1 en stöðugar horfur í febrúar síðastliðnum á þeim forsendum að miklar líkur séu á frekari fjárstuðningi stjórnvalda til þess að viðhalda stöðu hans. Þá sagði Moody's ennfremur líkur á að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs fara niður fyrir 3% á þessu ári vegna afskrifta og rekstrarkostnaðar.