Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sendi pillu á Sjálfstæðisflokkinn í færslu á Twitter í gær þar sem hann bendir á að ríkissjóður hafi verið rekinn með halla fyrir Covid, þ.e. 42 milljarða króna halla árið 2019, og að halli ríkisins hafi numið 144 milljörðum á síðasta ári samanborið við 2,9 milljarða halla borgarinnar. „Borgarfulltrúar xD hafa því áhyggjur af rekstri ríki... Reykjavíkur,“ skrifar Dagur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sá sig knúinn til að svara Degi í morgun og benti honum á að þarna færi hann með rangt mál.

„Sæll, þetta er rangt. Það var 42 milljarða afgangur hjá okkur 2019, ekki halli. Við höfðum búið vel í haginn árin fyrir Covid og gátum þess vegna brugðist við af krafti,“ skrifar Bjarni.

Dagur þakkaði Bjarna fyrir leiðréttinguna og sagði að um rangfærslu hefði verið að ræða í nýrri hagsjá Landsbankans. Hann ákvað þó að fylgja þessu eftir með því að minnast á að fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020, sem samþykkt voru árið 2019 og þá fyrir Covid, hefðu gert ráð fyrir hallarekstri ríkissjóðs á síðasta ári.

xD ætti að styðja, ekki væla

Þórður Gunnarsson, blaðamaður Markaðarins, svaraði Degi sömuleiðis í gær og benti á að ríkissjóður hefði niðurgreitt laun stórs hluta vinnuaflsins á síðasta ári, m.a. með hlutabótaleiðinni. Fyrir vikið hefði halli ríkissjóðs verið meiri en ella og útsvarstekjur Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga því ekki lækkað jafn mikið og á horfðist.

Dagur tók undir þessa ályktun og bætti við að skynsamlegra hefði verið fyrir ríkið að ganga enn lengra í þessum efnum á Íslandi, m.a. gagnvart sveitarfélögum, líkt og á Norðurlöndum. „Borgin axlaði líka sitt - og jók fjárfestingar. xD ætti að styðja, ekki væla.“

Dagur áréttaði þó að hann væri ekki að gagnrýna hallann sjálfan heldur væri hann að finna að því hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri ábyrgðarlaus í umræðu um fjármál borgarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að „ræða þau algerlega úr samhengi við efnahagsstöðuna og réttu viðbrögðin við henni. Og þetta étur svo hver eftir öðrum“.