Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í Silfrinu fyrr í dag mál Samherja ekki snúast um fiskveiðistjórnunarkerfið og líkti útgerðarrisanum og framferði hans við Baug fyrir hrun, sem hafi meðal annars beitt sér opinberlega gegn Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Leiðtogar allra stjórnmálaflokka á þingi í dag tókust á í Silfrinu í dag og fóru um víðan völl, en aldrei komst jafn mikill hiti í umræðurnar eins og þegar Bjarni tók til máls um tilraunir Samherja til afskipta af stjórnmálum.

„Jóhannes heitinn Jónsson birti heilsíðuauglýsingar í helstu blöðum. Voru það afskipti af stjórnmálum á Íslandi? Ég held það. Ég held það hafi verið bein afskipti af prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík,“ sagði Bjarni. Afskiptin hafi verið höfð í krafti þess veldis sem Baugur hafi verið á sínum tíma, og nefndi þar sérstaklega fjölmiðla félagsins.

Málið snérist að hans mati um að byggja upp leikreglur „þar sem menn komast ekki upp með það í krafti auðs að hafa afskipti af því hvernig framgangur mála er á sviði stjórnmálanna, eða stjórna samfélagsumræðunni í gegnum fjölmiðlana.“

„Eru menn að halda því fram hér að eitt af stóru fyrirtækjunum á Íslandi gæti ekki hafa gert nákvæmlega það sama?“ sagði Bjarni og endurómaði þar á vissan hátt ummæli Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar og Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri Grænna, sem sögðu vandann meðal annars liggja í auðsöfnun almennt.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins tók undir með Bjarna og sagði fráleitt að tala niður heila atvinnugrein vegna framferðis eins fyrirtækis. „Það sem Samherji er að gera núna, og stjórnendur þeirra, virðist vera gert í einhverri heift, og það er þeim ekki sæmandi. Hefur það eitthvað með sjávarútveginn í heild sinni að gera? Nei.“

Bjarni sagði tilraun Samherja til afskipta misheppnaða og hlægilega í samanburði við það sem Baugur hefði gert á sínum tíma. „Þessi litla tilraun Samherja sem birtist í einhverjum tölvupóstsamskiptum til þess mögulega að reyna að koma einhverjum kandídat að í prófkjörum, sem virðist ekki hafa tekist, mér finnst hún hlægileg við hliðina á þessum dæmum sem við höfum fyrir framan okkur þar sem menn bara grímulaust birtu hér í eigin nafni heilsíðuauglýsingar gegn ákveðnum ráðherrum. Þannig að menn verða að átta sig á því að þetta snýst ekkert um fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi,“ ítrekaði hann og var nokkuð heitt í hamsi.

Koma fram í krafti skjóls frá ríkisstjórninni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar andmælti þeirri fullyrðingu Bjarna að málið snérist ekki um fiskveiðistjónunarkerfið nokkuð harðlega. „Ég vil bara segja það fullum fetum að það er engin tilviljun að þessir aðilar koma núna í krafti þess skjóls að mínu mati sem þeir eru að fá hjá ríkisstjórninni, og það er náttúrulega bara rugl að segja að þetta snerti ekki meðal annars sjávarútvegskerfið sjálft,“ sagði hún og benti á að 5 mánuðir væru síðan beðið var um skýrslu um eignarhald sjávarútvegsfyrirtækjanna í öðrum greinum, en ekkert bólaði á henni enn.

„Það þýðir ekki bara að lýsa yfir einhverri undrun og ónægju og mjálma eitthvað eftir ríkisstjórnarfundi þegar hljóðneminn er rekinn upp í ráðherrana,“ sagði hún og gaf lítið fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um málið. Þörf væri á „raunverulegum aðgerðum“ – sem meðal annars myndu þurfa að snerta fiskveiðistjórnunarkerfið – og nefndi þar sem dæmi tímabindingu veiðiheimilda, „eðlilegt“ gjald af þeim, og gagnrýndi það að Samkeppniseftirlitið, Fiskistofa og Verðlagsstofa skiptaverðs hefðu verið veiktar.

„Við þurfum að fá allt upp á yfirborðið til að kerfið – sem er í grunninn gott – þjóni ekki bara útgerðinni, heldur þjóðinni líka. Sá hlutur er eftir og við verðum að komast að sameiginlegri niðurstöðu þannig að það gerist að við hættum að hafa þessa sérhagsmuni sem eru núna viðloðandi.“

„Halda menn því fram að Eimskip hefði ekki efni á því að stunda svona starfsemi?“
Bjarni sakaði Þorgerði og fleiri á móti um að nýta sér tækifærið til að koma gagnrýni sinni á fiskveiðistjórnunarkerfið á dagskrá í skjóli Samherjamálsins.

„Þetta snýst um það að þeir sem hafa efnast á Íslandi geta beitt sér í krafti auðs. Þá verður að tempra, sama hvaðan þeir koma. Slíkir aðilar eiga ekki að fá að komast upp með það að fara að hafa áhrif á gang stjórnmálanna í landinu, hverjir semja lögin og um hvað þau eru, það er kjarni málsins. En hér er verið að reyna að nota ferðina – fólk sem hefur verið gagnrýnið á fiskveiðistjórnunarkerfið – til þess að reyna að styrkja sinn málstað í því að þarna liggi einhver rót vandans. Halda menn því fram að Eimskip hefði ekki efni á því að stunda svona starfsemi? Nú eða hvaða annað fyrirtæki sem er? Fasteignafélag eða eitthvað eignarhaldsfélag. Þetta snýst um meðferð auðs og valds í samfélaginu, og þar þurfum við að beita okkur.“