Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælir fyrir frumvörpum um höfuðstólslækkun húsnæðislána á Alþingi í dag. Hann mun fyrst mæla fyrir frumvarpi sem snýr að séreignarsparnaði en síðan er gert ráð fyrir að hann muni mæla fyrir frumvarpi um  leiðréttingu lánanna.

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu hugmyndir að skuldaniðurfellingum í lok nóvember. Frá þeim tíma hefur verið unnið að gerð frumvarpanna og voru þau kynnt á blaðamannafundi í Iðnó í síðustu viku.

Eins og fram hefur komið nemur heildarumfang aðgerðanna um 150 milljörðum króna samkvæmt áætlunum.