Bjarni Már Gylfason hóf störf sem hagfræðingur SI nú í byrjun mars en fyrrum hagfræðingur Samtakanna, Þorsteinn Þorgeirsson, hefur látið af störfum til að taka við embætti skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Bjarni hefur kennt hagfræði við Verzlunarskóla Íslands undanfarin ár en var þar áður blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Auk þess hefur hann sinnt aðstoðarkennslu í tölfræði við Háskóla Íslands. Samhliða starfi sínu í Verzlunarskólanum hefur hann verið fulltrúi menntamálaráðherra í starfsgreinaráði fjármála- og skrifstofugreina og er varaformaður Félags viðskiptagreinakennara í framhaldsskólum.

Bjarni lauk námi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og er að ljúka MSc gráðu í hagfræði, einnig við Háskóla Íslands. Þar áður stundaði hann nám í heimspeki við H.Í Bjarni lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1995 og hefur einnig lokið námskeiðum í fullorðinsfræðslu og upplýsingatækni.

Bjarni mun einkum sinna verkefnum á sviði efnahagsmála svo sem rannsóknum á starfsskilyrðum iðnar og efnahagslegum árifum ESB og EMU aðildar. Hagtölur iðnaðarins verða á starfssviði Bjarna en einnig mun hann sjá um að kynna stefnu SI í efnahagsmálum og hafa náið samstarf við umsjónarmenn starfsgreinahópa á sviði hagtalna og efnahagsmála. Bjarni mun jafnframt starfa sem tengiliður við fyrirtæki í stóriðju en það er vaxandi málaflokkur hjá Samtökum iðnaðarins.