„Ákvörðun Seðlabankans kemur ekki á óvart í ljósi þess hvernig fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa talað upp á síðkastið. En því miður mun hún ekki hafa mikil áhrif enda öllum ljóst að það skiptir litlu máli hvort vextir eru 17% eða 18%,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins um ákvörðun Seðlabankans að lækka vexti. „Auðvitað vonum við að bankinn ætli sér að trappa vextina niður hratt og örugglega.“   Bjarni segir að þörf sé á miklu meiri lækkun vaxta enda er enginn eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu, verðbólgan á hröðu undanhaldi og alvarlegur samdráttur sé þegar hafinn. „Þörfin fyrir vaxtalækkun er gífurleg enda ljóst að engin fjárfesting eða nýsköpun mun eiga sér stað á meðan vextir eru enn svona háir. Mig grunar að Seðlabankinn sé að prufa sig áfram til að reyna sjá hvort og þá hvaða áhrif þessi lækkun hafi á gjaldeyrismarkað. Ég veit reyndar ekki hvaða áhrif þetta ætti að hafa á gengið enda eru miklar takmarkanir á gjaldeyrisflutningum. Rök Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir því að viðhalda gjaldeyrishöftum eru m.a. þau að ólgan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé einfaldlega of mikil til að hægt sé að afnema höftin.

Ég get ekki betur séð en að  það sé verið að segja að krónan gangi alls ekki upp sem gjaldmiðill  til framtíðar nema við ætlum okkur að loka hagkerfinu í hvert skipti sem einhverjar hræringar verða á alþjóðlegum mörkuðum. Háir vextir eru bein afleiðing þess að við erum með agnarsmán gjaldmiðil sem aðeins í orði kveðnu er sjálfstæður. Eðlilegt vaxtastig mun aðeins verða hlutskipti okkar þegar við höfum tekið þá nauðsynlegu ákvörðun að fara með krónuna á Þjóðminjasafnið, ganga í Evrópusambandið og taka upp evru,“ segir Bjarni Már.