„Ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti kemur ekki á óvart. Hún er í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru í bréfi íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í því kemur raunar fram viljayfirlýsing um frekari hækkun vaxta ef þurfa þykir,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins í samtali við Viðskiptablaðið.

Bjarni bendir á að líklega liggi gengisþróunar krónunnar síðustu daga til grundvallar en hún hefur verið að styrkjast talsvert. Einnig hafi verðbólgumæling í gær gefið til kynna að nokkuð sé að hægja á verðbólguhraðanum þótt verðbólgustigið sé enn mjög hátt. Líklega muni hratt draga úr verðbólgu á næstu mánuðum svo framarlega sem gengi krónunnar veikist ekki.

„Þótt vaxtaákvörðunin komi ekki á óvart er hún samt sem áður vonbrigði því aðstæður í efnahagslífinu kalla á verulega lækkun vaxta. Við sjáum alls ekki rökin fyrir því að hafa bæði gjaldeyrishöft og háa vexti en Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn virðist meta það sem svo að hafi verið nauðsynlegt til að skjóta stoðum undir krónuna. Ég vona bara að þegar sendinefnd sjóðsins kemur til að endurmeta ástandið hérlendis sjái þeir að sér og mæli með lækkun vaxta til að tryggja að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Það er engin ástæða að gera ástandið verra en það þarf að vera“, segir Bjarni Már.