Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði laun Bjarna Bjarnasonar forstjóra fyrirtækisins um 8,6% frá síðustu mánaðamótum og eru þau þá komin í 2,8 milljónir króna.

Er inn í þeirri tölu 147 þúsund króna greiðsla sem fyrirtækið komi í stað hlunninda, „enda nýtur forstjóri ekki afnota af bifreið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur“, segir í svari frá fyrirtækinu í Fréttablaðinu .

Fær 230 þúsund fyrir hvort dótturfélag

Einnig er inni í þessari upphæð greiðslur vegna stjórnarformennsku í tveimur dótturfélögum OR, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur, sem samsvara 230 þúsund krónum hvert.

Frá því fyrir sex árum þegar Bjarni tók við þann 1. mars árið 2011 hafa laun hans því verið tvöfölduð, en þá voru mánaðarlaun hans 1.340 þúsund krónur. Reiknast hækkunin með þessari nýju hækkun vera 108%, meðan almenn launavísitala hefur hækkað um 54%.

Orkuveitan hafnaði fyrirspurn um að fá aðgang að minnisblöðum starfskjaranefndar fyrirtækisins varðandi launamálin, með þeim rökstuðningi að þau teldust til vinnugagna og því væru þau undanþegin upplýsingarétti.