Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að mikill áhugi sé á sumum af þeim óskráðu eignum sem ríkið fékk í sinn hlut vegna stöðugleikaframlaga. Hann segir að það ætti að verða tiltölulega auðsótt að koma þeim í verð. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu.

Félagið Lindarhvoll, sem stofnað var á dögunum, mun sjá um að selja eignirnar sem ríkið fékk vegna stöðugleikaframlaga. Íslandsbanki er þar undanskilinn, en hlutur ríkisins í honum er í umsjá Bankasýslu ríkisins. Bjarni segir að stefnt sé að því að koma meginþorra eignanna í verð fyrir áramót. Ekkert tilefni sé fyrir ríkið að standa í rekstri þeirra félaga sem um ræðir.

„Við metum það svo að þegar þetta eignasafn hefur verið greint, þá eigi að vera hægt á tiltölulega skömmum tíma að finna nýja eigendur að mjög stórum hluta eignanna en ég vek athygli á því að þetta er fjölbreytt eignasafn,“ segir Bjarni.

Á meðal þeirra eignahluta sem ríkið fékk eru 13,67% hlutur í Sjóvá, 6,38% hlutur í Reitum og hlutur í Eimskipi. Þá á ríkið allt hlutafé í Lyfju, hlut í Lýsingu, Dohop, Auði Capital og fleiri félögum.