„Nú þegar hagkerfið kólnar er augljós kostur að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum og verja fjármunum sem þannig fást í innviðafjárfestingar,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Morgunblaðinu .

Hann segir að þannig geti ríkið styrkt grunnstoðir og komið með þarfa innspýtingu inn í hagkerfið.

„Verði af sölu banka gætum við breytt hugmyndum um gjaldtöku á nýjum leiðum og hér á Reykjavíkursvæðinu, ég sæi fyrir mér að vegtollar myndi einskorðast við stærstu mannvirki eins og ný Hvalfjarðargöng og Sundabraut og eftir atvikum stöku verkefni sem flýta á sérstaklega. Stór verkefni í vega- og hafnagerð bíða og svo þarf nýjan gagnastreng til landsins. Öll þessi verkefni skapa atvinnu og auka verðmætasköpun.“

Bendir hann á að eigið fé bankans sé um 170 milljarðar króna og væri því fjórðungshlutur tuga milljarða virði.

„Miðað við verðmat markaðarins á fjármálafyrirtækjum er ólíklegt að við fengjum fullt bókfært verð fyrir bankann,“ varar hann þó við.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem Bjarni fer fyrir, hyggst nú fara í fundarherferð um landið til að ræða við landsmenn og heyra sjónarmið þeirra nú þegar fer að kólna í hagkerfinu og þörf sé því á atbeina ríkisins. Hann segir traust ríkja milli forystumanna flokkanna sem mynduðu ríkisstjórnina í nóvemberlok 2017, og vel gangi að ná málamiðlunum í helstu álitaefnum.

„Við þurftum að hafa þroska til að vinna úr þeim aðstæðum sem úrslit kosninga færðu okkur,“ segir Bjarni sem ekki hefur áhyggjur af því að á miðju kjörtímabili mælist flokkurinn í kringum 22% ítrekað og bendir á að flokkurinn hafi fengið hærra í síðustu tveimur kosningum en kannanir bentu til.

„Eftir síðustu kosningar var tveggja flokka ríkisstjórn ekki í boði og mér fannst þá sem Sjálfstæðisflokknum bæri skylda til þess að skapa stöðugleika. Núverandi stjórnarandstaða er tvístruð og það eykur ekki jafnvægi í stjórnmálum á Íslandi að flokkum haldi áfram að fjölga og svo verður enginn þeirra kjölfesta.“