Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við vb.is að Sjálfstæðismenn muni styðja vantrauststillöguna sem Þór Saari lagði fram á Alþingi í dag . „Að sjálfsögðu gerum við það,“ segir Bjarni.

Í greinargerð með tillögunni segir Þór að hann leggi hana fram vegna þess að ríkisstjórnin geti ekki „afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað breyta stjórnarskránni í takt við tillögur stjórnlagaráðs, en Bjarni segir að menn geti stutt vantrauststillögur án þess að vera sammála þeim forsendum sem búi að baki þeim. „Þegar ég lagði fram mína vantrauststillögu vorið 2011 tók ég fram að menn þyrftu ekki að vera sammála mér um forsendur vantraustsins til að greiða atkvæði með tillögunni. Það sama stendur núna.“