Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir Þjóðarpúls Capacent, sem birtist í gær, hafa valdið sjálfstæðismönnum vonbrigðum. Sem kunnugt er mældist flokkurinn með 22,4% fylgi í Þjóðarpúlsinum í gær.

„Sú staða að mælast fjórum vikum fyrir kosningar með 22,4% fylgi er eitthvað sem við hefðum fyrir einungis sex vikum talið óhugsandi,“ segir Bjarni í bréfi til trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins sem sent var fyrr í dag, en þar minnir Bjarni á að í upphafi þessa árs hafi fylgi flokksins verið 35,5%.

„Síðan höfum við horft á fylgið fara niður á við, en nú er botninum náð,“ segir Bjarni.

„Við þurfum að ákveða það, hvert með sjálfu sér, að héðan í frá liggi leiðin upp á við. Við höfum allt sem þarf. Við eigum glæsilega frambjóðendur, trausta stefnu og öflugt fólk um allt land sem vill vinna að kosningabaráttunni með okkur.“

Þá segir Bjarni að það hafi komið glögglega fram í leiðtogaumræðum í Ríkissjónvarpinu í gær að Sjálfstæðisflokkurinn hafi algjöra sérstöðu þegar kemur að málefnum.

„Enginn flokkur ætlar sér að vinda ofan af skattahækkunum fráfarandi ríkisstjórnar - nema Sjálfstæðisflokkurinn. Enginn. Þetta er algjört grundvallaratriði.Við ætlum einnig að lækka tolla og gjöld og þar með vöru- og eldsneytisverð,“ segir Bjarni.

„Að auki virðist enginn annar flokkur ætla að leggja áherslu á að hleypa krafti í atvinnulífið, grundvöll velferðarkerfisins og forsendu batnandi lífskjara í landinu. Þeir keppast við að lofa útgjaldaaukningu ríkissjóðs án þess að vilja ræða um sjálfa forsendu framfara og uppbyggingar. Að sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins er eitt höfuðstefnumál okkar. Við erum með almenna og raunhæfa lausn á skuldavanda heimilanna sem koma má í framkvæmd án tafar, lausn sem gerir fólki kleift að lækka höfuðstól lána sinna um 20% á næstu árum með skattaafslætti.“

Þá segir Bjarni að það sé útilokað að hugsa sér Sjálfstæðisflokkinn utan ríkisstjórnar í tvö kjörtímabil.