Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra fundaði í gær með Michael Gove, ráðherra umhverfis,- matvælaframleiðslu- og byggðamála í Bretlandi en sjávarútvegsmál heyra undir ráðuneyti hans. Á fundinum ræddu þeir góð samskipti ríkjanna og lögðu áherslu á að nýta tækifærin til að styrkja þau enn frekar.

Þá ræddu ráðherrarnir tveir einnig úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) og sjávarútvegsmál en að sögn Gove er megintilgangur heimsóknarinnar að kynna sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og starfsemi á sviði sjávarútvegs.

Ræddu um fríverslun

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hitti Gove sömuleiðis í gær en á fundinum ræddu þeir um fríverslun. „Það er gagnkvæmur áhugi á því að efla samstarf ríkjanna enn frekar í kjölfar Brexit og við lítum á Bretland sem afar mikilvægan bandamenn þegar kemur að fríverslun. Bretar eru nú að taka á nýjan leik stjórn á sínum sjávarútvegi og við Íslendingar erum reiðubúnir að deila með þeim reynslu okkar og þekkingu. Fyrir Breta er Ísland gott dæmi um ríki sem hefur kosið að standa utan við Evrópusambandið en á eftir sem áður í nánu samstarfi við samandið og aðildarríki þess, ekki síst í fríverslunarmálum. Við getum því miðlað af margvíslegri reynslu og um leið styrkt tengsl okkar við Bretland,“ segir Guðlaugur Þór.