Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefur boðað til spjallfundar í Valhöll í kvöld, mánudaginn 14. nóvember.

Gestir fundarins eru þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði en fundurinn er ætlaður landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fundarstjóri verður Steingrímur Sigurgeirsson, formaður Varðar og fyrrv. aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Sem kunnugt er hefur Hanna Birna boðið sig fram gegn Bjarna á komandi landsfund. Hún hefur síðustu daga þrætt landið og hitt sjálfstæðismenn víða um land. Bjarni hafði í lok október lokið slíkri fundarherferð þegar hann kynnti efnahagstillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem lagðar voru fram í október.