Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eru þeirrar skoðunar að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í aðsendri grein þeirra í Fréttablaðinu í dag. Þar segja þeir einnig að til lengri tíma litið sé hætt við að krónan verði Íslendingum fjötur um fót, þó að ýmis rök hnígi að því að hún geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma.

Þeir segja að ekkert hafi breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um sé að semja í aðildarviðræðum. En þeir halda áfram: „Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ítrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli.“