„Um kvöldið, líklega um ellefu leytið að kvöldi, hringdi Kristján Þór [Júlíusson] í mig og Bjarna og tjáði okkur að stjórnarformaður Glitnis [Þorsteinn Már Baldvinsson] vildi ræða við okkur um stöðu Glitnis, eins og mál stóðu þá," segir Illugi Gunnarsson, þingsflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um fund sem fram fór kvöldið áður en Glitnir var þjóðnýttur.

Illugi segir hann og Bjarna hafa rætt við Þorstein Má og hlustað á þau sjónarmið sem þar komu fram.

„Við töldum að það væri skynsamlegt að heyra sjónarmið stjórnarformanns Glitnis á þessum tímapunkti," segir Illugi.

Hann segir hann og Bjarna aðeins hafa rætt við Þorstein Má. Hann sagðist í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa lesið skýrslu rannsóknarnefndarinnar nema að litlu leyti en hann er staddur í Ósló á vegum Norðulandaráðs. Það sem hann hefði séð og heyrt af henni væri um margt sláandi.

„Það er ljóst að útlánastefna bankanna var mjög óábyrg og mun óábyrgari en maður hélt," segir Illugi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Illugi Gunnarsson, þingmaður sjálfstæðisflokks, voru staddir í höfuðstöðvum Stoða/FL Group nóttina áður en að Glitnir var þjóðnýttur. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Stoðir/FL Group voru aðaleigendur Glitnis banka fyrir fall hans og Jón Ásgeir Jóhannesson átti ráðandi hlut í Stoðum/FL Group.

Í skýrslunni segir að aðfaranótt 29. september, dagsins sem Glitnir var þjóðnýttur, hafi Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, og Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður hans verið „boðaðir til fundar við Þorstein Má Baldvinsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur. Þar voru einnig staddir nokkrir stjórnarmenn í Glitni auk Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða. Loks voru þar staddir þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson“.