Bjarni Kristjánsson og Jón Ingi Benediktsson hafa gengið til liðs við Hagvang sem hefur nú endurvakið rekstrar- og fjármálaráðgjöf. Sú starfsemi á rætur sínar að rekja allt aftur til fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar þegar nokkrir ungir menn snéru heim úr námi frá Bandaríkjunum með þekkingu á rekstri fyrirtækja í farteskinu, segir í tilkynningu frá Hagvangi.

Bjarni starfaði sem yfirmaður fjármála- og rekstrarsviðs Ríkisútvarpsins, framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðjunnar og þar á undan sem fjármálastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hann er útskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Kaupmannahafnarskóla með áherslu á alþjóðlega peningamálahagfræði, vinnumarkaðshagfræði, skattahagfræði og félagsfræði.

Jón Ingi hefur starfað í 25 ár hjá Ríkisútvarpinu, meðal annars sem skrifstofustjóri fjármáladeildar og svo forstöðumaður rekstrardeildar. Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Tækniskóla Íslands árið 1997.