Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafa bæði sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau greina frá tengslum sínum við svokölluð aflandsfélög. Bjarni átti þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði fyrir viðskiptafélaga hans um kaup á fasteign í Dúbaí. Eiginmaður Ólafar Nordal, Tómas Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Alcoa, naut leiðsagnar hjá Landsbankanum fyrir tæpum tíu árum síðan þar sem bankinn lagði til að hann stofnaði sérstakt erlent fjárfestingafélag um kaupréttasamninga hans. Í tilviki þeirra beggja hafði Landsbankinn í Lúxemborg stofnað sérstakt félag fyrir þeirra hönd á Bresku Jómfrúareyjunum.

Bjarni segir í yfirlýsingu sem hann sendi sem svar við fyrirspurn fréttastofu RÚV að fyrir tíu árum hefði hann keypt tæpar 40 milljón króna þriðjungshlut í eignarhaldsfélag sem Landsbankinn í Lúxemborg hefði stofnað fyrir viðskiptafélaga hans um kaup á fasteign í Dúbaí. „Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg,“ segir í yfirlýsingu Bjarna. Hann bætir því við að félagið hafi verið gert upp árið 2009 með tapi og það sett í afskráningarferli. Það hafi engar tekjur haft, ekkert skuldað eða tekið lán og enga starfsemi haft.

Í yfirlýsingu Ólafar Nordal kemur fram að eiginmaður hennar, Tómas Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Alcoa, hafi notið leiðsagnar hjá Landsbankanum síðari hluta ársins 2006 varðandi fjármál og kaupréttarsamninga sem voru hluti af starfskjörum Tómasar. „Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði félagið, Dooley Securities og var bankinn skráður eigandi þess. Í undibúningi þessa máls veitti bankinn Tómasi umboð á umrætt félag og óskaði hann jafnframt eftir því að ég fengi sambærilegt umboð. Það mun vera skýring á því að nöfn okkar eru á umræddum lista,“ „En aðstæður breyttust og aldrei kom til þess að Tómas tæki yfir eignarhald þessa félags eða nýtti það til fjárfestinga. Allt þetta gerðist áður en ég tók sæti á Alþingi og voru þessi áform löngu aflögð þegar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tóku gildi.“