Ekki verður ráðið af efni Icesave-samninganna að tekið hafi verið  „tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“, eins og fram hafi komið í hinum sameiginlegu viðmiðum sem samþykkt hafi verið hinn 14. nóvember 2008 fyrir milligöngu Frakklands að lögð skyldu til grundvallar lausnar deilunnar.

Þvert á móti muni þær skuldbindingar sem af samningunum leiða gera Íslendingum allt að því ókleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt í nánustu framtíð. Þetta kemur fram í áliti 2. minnihluta utanríkismálanefndar um frumvarp fjármálaráðherra um heimild til ríkisábyrgðar vegna Icesave-samninganna.

Yfirlýsingar um stuðning voru gefnar fyrir hrun allra bankanna

Í áliti 2. minnihluta, sem eru þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er sett fram margvísleg önnur gagnrýni á málið.

Farið er yfir sögu þess og sagt að fyrir liggi að í aðdraganda bankahrunsins hafi íslensk stjórnvöld ítrekað nokkrum sinnum við bresk stjórnvöld að þau mundu standa við skuldbindingar samkvæmt tilskipun um lágmarksgreiðslur til innstæðueigenda. Ennfremur að stjórnvöld mundu styðja við Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta til þess ef þörf krefði. „Yfirlýsingarnar voru gefnar áður en fyrir lá að allir stóru íslensku bankarnir lentu í greiðsluerfiðleikum. Þegar bankarnir féllu vöknuðu því eðlilega spurningar um hvort, og þá hvernig, evrópskum tryggingarkerfum innstæðna væri ætlað að bregðast við slíkum aðstæðum,“ segir í álitinu.

Þar er haldið áfram: „Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu töldu íslensk stjórnvöld frá upphafi ljóst að forsendur tilskipunarinnar væru hrun einstakra banka en ekki almennt kerfishrun. Því væri vafi á því hvort tilskipunin ætti við með sama hætti í slíkum tilvikum og nauðsynlegt að fá úr því skorið með lögformlegum hætti fyrir dómstóli eða gerðardómi hvort íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem  ryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn.“

Fyrirspurnir breskra stjórnvalda sýna að vafi var um ríkisábyrgð

Þá segir 2. minnihluti að hvergi sé kveðið á um ríkisábyrgð á greiðslum úr innstæðutryggingakerfi Evrópu samkvæmt tilskipuninni og að 2. minnihluti telji ljóst af fyrirspurnum breskra stjórnvalda til viðskiptaráðuneytisins í aðdraganda hrunsins, um hugsanlegan stuðning ríkisins við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta ef sjóðurinn réði ekki við útgreiðslur lágmarkstrygginga, að bresk stjórnvöld hafi ekki talið sig geta gengið að slíkri ríkisábyrgð sem vísri samkvæmt tilskipuninni.

„Með öðrum orðum undirstrikar eftirgrennslan breskra stjórnvalda greinilega hina lagalegu óvissu. Ef bresk stjórnvöld hefðu gengið út frá því sem gefnu að ríkisábyrgð fælist á einhvern hátt í innleiðingu tilskipunarinnar hefði slík eftirgrennslan gagnvart íslenskum stjórnvöldum verið óþörf. Svör íslenskra stjórnvalda gengu heldur aldrei lengra en svo að sagt var að íslensk stjórnvöld mundu styðja sjóðinn í samræmi við getu sína og lagalegar skuldbindingar,“ segir í álitinu.

Fleiri ríki en Bretland og Holland höfðu hagsmuni af lagatúlkun sinni

Þar er rakið að íslensk stjórnvöld hafi haldið hinni lagalegu óvissu til haga eftir hrunið og að henni hafi verið gerð góð skil með greinaskrifum lögfræðinga og lagaálitum fjölda innlendra og erlendra aðila. ESB-ríkin, auk Noregs, hafi hins vegar hafnað lagatúlkun íslenskra stjórnvalda. Í því sambandi er bent á að íslenskir bankar hafi starfað mun víðar en í Bretlandi og Hollandi og að mörg þessara ríkja hafi því haft hagsmuni af sinni túlkun.