Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru að hefjast. Ekki er upplýst hvar viðræðurnar fara fram en RÚV greinir frá því að þær séu ekki á höfuðborgarsvæðinu.

Í frétt RÚV er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að fundurinn í dag yrði meiri vinnufundur, áður hefðu þeir Sigmundur fyrst og fremst verið að ræða saman. Hann er bjartsýnn á að flokkarnir nái saman í vikunni, til að mynda í skuldamálum heimilanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að gengið yrði til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokk.