Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur ákveðið að ráða Bjarna Bjarnason jarðfræðing og verkfræðing forstjóra fyrirtækisins. Hann tekur við starfinu af Helga Þór Ingasyni, sem ráðinn var tímabundið í ágúst 2010. Bjarni tekur til starfa 1. mars. Umsækjendur um starfið voru sextíu talsins og hefur ráðningarferlið staðið frá 28. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Úr tilkynningu:

„Bjarni segir að starfið leggist vel í sig en að hann geri sér jafnframt grein fyrir því að staða Orkuveitunnar sé erfið og að mörg og flókin verkefni bíði úrlausnar. Orkuveitan sé fyrirmyndar fyrirtæki á margan hátt og samfélaginu mikilvæg. Því sé það forgangsverkefni að greiða úr rekstrarvanda félagsins en til þess þurfi samhenta vinnu starfsmanna, stjórnar og eigenda á næstu misserum.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, býður Bjarna velkominn til starfa hjá Orkuveitunni. Ljóst sé að víðtæk reynsla hans nýtist Orkuveitunni vel í þeim ögrandi verkefnum sem framundan eru. „Mér sýnist þetta vandaða ráðningarferli hafi skilað okkur traustri niðurstöðu,“ segir Haraldur Flosi.

Bjarni hefur verið forstjóri Landsvirkjunar Power, dótturfélags Landsvirkjunar, frá 2008 en áður var hann  framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar um sjö ára skeið. Bjarni hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum á ferli sínum, m.a. sem tæknistjóri Jarðborana hf., framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og forstjóri Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga. Bjarni er varaforseti Alþjóða Vatnsorkusamtakanna, International Hydropower Association.

Bjarni las jarðfræði í Háskóla Íslands og lauk B.Sc. prófi árið 1981. Þá tók hann licentiat-próf í námaverkfræði frá Tækniháskólanum í Luleå í Svíþjóð 1986.“